26. ágúst, 2009
Hagnaður KEA fyrir reiknaða skatta nam 110 milljónum króna á fyrri árshelmingi ársins. Hagnaður tímabilsins eftir reiknaða skatta nam
93 milljónum króna. Heildareignir félagsins nema 4,1 milljarði króna og er félagið nánast skuldlaust. Eigið fé var
rúmir 3,9 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall var 96%.
Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri segist sáttur við niðurstöðuna. „Við tókum hressilega niðurfærslu í
síðasta ársuppgjöri með það að markmiði að sýna sem raunhæfasta stöðu félagsins eftir þær hamfarir sem
hér hafa dunið yfir. Rekstrarumgjörð fyrirtækja er enn mikilli óvissu háð en við teljum okkur hafa lagt nægjanlegt til hliðar.
Afkoman tekur mið af því að reynt hefur verið að tryggja höfuðstól félagsins á kostnað ávöxtunar á meðan mesta
óvissan líður hjá hvað varðar ýmsa þætti efnahagsmála og endurreisnar bankakerfisins. Lausafjárstaðan er mjög
góð og efnahagslegur styrkleiki einnig. Við höfum aðlagað stefnu félagsins að breyttum aðstæðum á þann veg að nú
leitar félagið að áhugaverðum fjárfestingakosti sem færir félagið að svokallaðari kjarnastarfsemi sem þýðir að
meginstarfsemi félagsins verður á einu sviði eða í einni atvinnugrein.“