Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA svf.
Af 80 fulltrúum deilda á aðalfundi KEA svf. mættu 78 til fundarins í gær og lýstu stjórnendur félagsins þessari góðu mætingu sem skilaboðum um mikinn áhuga félagsmanna á að vinna að framþróun félagsins undir nýjum formerkjum. Eins og vænta mátti voru umbreytingar á félaginu á undanförnum misserum miAf 80 fulltrúum deilda á aðalfundi KEA svf. mættu 78 til fundarins í gær og lýstu stjórnendur félagsins þessari góðu mætingu sem skilaboðum um mikinn áhuga félagsmanna á að vinna að framþróun félagsins undir nýjum formerkjum. Eins og vænta mátti voru umbreytingar á félaginu á undanförnum misserum mikið til umfjöllunar í erindum á fundinum. Benedikt Sigurðarson, formaður fyrrverandi stjórnar og þeirrar sem tók við að aðalfundinum loknum í gær, sagði í ræðu sinni að deildaskipting félagsins bjóði upp á mjög virka þátttöku félagsmanna og möguleika þeirra til aðkomu að stórum ákvörðunum, t.d. hvað varðar fjárfestingar.
"Við erum nú með gjörbreytt samvinnufélag. Frá og með 1. janúar 2002 er KEA skuldlaust félag, er ekki með neinn rekstur inni í sjóði en ræður yfir miklum eignum. Félagið er þess albúið að fjárfesta í samstarfi við aðra og það er einn af megin punktunum í fjárfestingastefnunni sem nú hefur verið kynnt að félagið ætlar sér ekki að vera ráðandi aðili í nýjum fjárfestingum heldur leitast við að laða aðila til samstarfs í fjárfestingum," sagði Benedikt og bætti við að meðal verkefnanna yrði einnig að semja um viðskiptakjör fyrir félagsmenn og sér í lagi mun sú vinna snúast um að gera svokallað Kostakort félagsins að virkum greiðslumiðli fyrir félagsmenn í KEA.
Benedikt sagði að hvað daglegan rekstur snerti þyrfti ný stjórn að taka ákvörðun á næstunni um starfsmanna- og skrifstofuhald, sem og ráðningu nýs kaupfélagsstjóra.
"Ég vona sannarlega að stjórnendum félagsins takist að svara félagsmönnum spurningunni hvers vegna að ganga í KEA með svo jákvæðum, ákveðnum og sýnilegum hætti að það verði ekkert vafamál fyrir íbúa félagssvæðisins að þeir vilji ganga í félagið," sagði Benedikt.
"Það er trú mín að hlutverk KEA í þessum breytta farvegi verði öflugasti byggðastuðningur sem félagssvæðið getur fengið. Ég trúi að KEA geti eflt mannlíf, stórfjölgað tækifærum ungs fólks með þeim hætti að fjölskyldur kjósi búsetu í landshlutanum fremur en að binda sig ævilangt á suðvesturhorninu eða í fjarlægari heimshlutum. Vonandi tekst okkur þannig að eignast okkar eigin lífeyrissjóð, lífeyrissjóð félagssvæðisins eða byggðastofnun í jákvæðustu merkingu þess orðs. Sýnum sjálfum okkur og öðrum að KEA er komið á beina braut og tekur áfram virkan þátt í lífi fólksins, leggur grundvöll að framtíð barnanna okkar. Okkar áskorun er nú að sýna almenningi fram á að það hafi tilgang að vera félagsmaður í KEA. Okkar áskorun er einnig sú að við tökum fullan og virkan þátt í samtali sem þarf að fara fram á félagssvæðinu um framfaramál og bætt lífsskilyrði á Norðausturlandi. Tökum þessari áskorun og eigum aðild að frumkvæðinu," sagði Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA.